Framkvæmdir og stækkun Bláa Lónsins, 2015-2018


Gestum Bláa Lónsins gefst nú einstakt tækifæri á að heimsækja og upplifa enn stærra lón því nú er fyrsta áfanga við stækkun þess og endurhönnun lokið. Upplifunarsvæði Bláa Lónsins hefur verið stækkað um helming og er lónið nú 8700 fermetrar en var áður 5000 fermetrar að stærð. Þá hefur magn hins heilnæma jarðsjávar aukist úr 6 milljónum lítra í 9 milljónir lítra.

Okkar margrómaði Bláa Lóns kísill, með jákvæðum áhrifum sínum á húðina, er nú boðinn á nýjum húðvörubar fyrir gesti.  Ennfremur munu þeir, sem vilja njóta Bláa Lóns nuddmeðferða, geta látið líða úr sér á flotdýnum í nýrri vík í náttúru og umhverfi sem á sér hvergi hliðstæðu. Þá hefur nýr og stærri hressingarbar verið byggður á nýjum stað í lóninu með góðu aðgengi fyrir gesti.

 


Þessi áfangi endurhönnunarinnar er hluti af enn stærra spa- og upplifunarsvæði sem byggt er inn í hraunið vestur af núverandi lóni, sem áformað er að verði opnað fyrri hluta árs 2018 ásamt 60 herbergja lúxushóteli.

Sigríður Sigþórsdóttir hjá Basalt arkitektum er aðalhönnuður verkefnisins, en hún er arkitekt allra mannvirkja Bláa Lónsins. Sigríður hefur starfað með Bláa Lóninu í tæplega tvo áratugi eða allt frá því að undirbúningur að núverandi mannvirkjum hófst um miðjan tíunda áratuginn.

Vinna við mannvirkin er sýnileg gestum Bláa Lónsins á þeim tíma sem verkefnið stendur yfir. Við leggjum áherslu á að upplifun heimsóknarinnar verði eftir sem áður sem allra best.