Vistkerfi Bláa Lónsins

Blue Lagoon jarðsjórinn er hluti vistkerfis sem varð til með samspili náttúru og vísinda. Háhitasvæðin á Íslandi liggja í gliðnunarbelti Ameríku og Evrópu-Asíu flekanna og tengjast virku eldfjallabelti landsins. Á Reykjanesi kemst kaldur vökvi, sem er blanda af sjó og grunnvatni, í snertingu við heitt innskotsberg á miklu dýpi, vökvinn snögghitnar og stígur upp í átt að yfirborði jarðar. Á u.þ.b. kílómetra dýpi er hitastig vökvans um eða yfir 200°C.

Úrkoma sem fellur á Reykjanesskagann seytlar í gegnum gljúpt hraunið og myndar í því ferskvatnslag með afrennsli til sjávar. Við ströndina mætir þetta grunnvatn söltum sjónum.

HS Orka borar eftir þessum jarðhitavökva til að sjá íbúum á Suðurnesjum fyrir heitu vatni og rafmagni. Borholurnar eru allt að 2.000 m djúpar og vökvinn um 240°C. Varmi hins endurnýjanlega jarðhitavökva er nýttur á samofinn hátt til þess að framleiða hitaveituvatn af drykkjarvatnsgæðum og rafmagn.

Jarðsjórinn

Jarðsjór Bláa lónsins er tekinn beint úr þessum borholum og leiddur í lögn að heilsulindinni þar sem gestir njóta þess að slaka á í hlýju lóninu meðan virkefni þess, sölt, kísill og þörungar, hlúa að líkama og sál.

Hitastig sjávarins í lóninu er 37-39°C. Lónið hefur að geyma 9 milljón lítra af jarðsjó, sem endurnýjar sig á 40 stunda fresti. Reglulegar prófanir sýna að algengar bakteríur þrífast ekki í þessu vistkerfi, þannig að ekki er þörf á viðbættum hreinsunarefnum á borð við klór.

Samsetning steinefna í jarðsjónum er einstök og kísilinnihaldið mjög hátt. Umhverfið einkennist af háhita og 2,5% salthlutfalli sem er þriðjungur saltmagns sjávar.

Hér sést hvernig jarðsjórinn nær upp á yfirborðið og safnar í sig steinefnum jarðar á leiðinni. Þannig myndast lónið sjálft, þessi einstaka náttúruuppspretta sem þekkt er fyrir lækningamátt sinn og virk efni.

Virk efni jarðsjávarins

Blue Lagoon jarðsjórinn og einstök náttúruleg efni hans – kísill, steinefni og þörungar – eru uppistaða Blue Lagoon húðvaranna. Jarðsjórinn er þekktur fyrir lækningarmátt sinn og jákvæð áhrif á húðina. Blue Lagoon hráefnin eru ræktuð úr náttúruuppsprettunni með náttúruvænum, grænum aðferðum. Þessi aðferð endurspeglar fullkomið samspil náttúru og vísinda. Hún tryggir að við getum nýtt það sem náttúran færir okkur á hreinan og öruggan hátt til að efla heilsu okkar, vellíðan og fegurð.

Þörungar | Gegn öldrun
Blue Lagoon þörungar vinna gegn öldrun húðarinnar – bæði með því að girða fyrir og gera við. Þörungarnir draga úr niðurbroti kollagens í húðinni af völdum skaðlegra sólargeisla og örva náttúrulega kollagenmyndun húðarinnar.* Þeir hjálpa til við að minnka fínar línur og hrukkur. Útkoman er unglegri húð.

Kísill | Styrkir
Blue Lagoon kísillinn verndar húðina fyrir skaðlegum umhverfisáhrifum með því að styrkja náttúrulegt varnarlag hennar.* Heilbrigð virkni varnarlags húðarinnar er einn af lykilþáttum í viðhaldi hennar og útgeislun.

Steinefni | Endurnæra
Blue Lagoon jarðsjórinn inniheldur einstaka samsetningu steinefna. Þau eru mikilvægur hluti Blue Lagoon húðvaranna því þau endurnæra og viðhalda jafnvægi húðarinnar. Ávinningurinn er heilbrigð húð sem geislar af náttúrulegri orku.

*in-vitro og in-vivo prófanir.