Auðlindagarður

Bláa Lónið gegnir stóru hlutverki í Auðlindagarðinum í Svartsengi og þeim efnahagslegu áhrifum sem hann hefur.

Bláa Lónið og Auðlindagarðurinn í Svartsengi


Bláa Lónið er staðsett í Auðlindagarðinum í Svartsengi, sem hefur byggst upp í grennd við jarðvarmaver HS Orku á Suðurnesjum og er einstakur á heimsvísu, boðar nýja tíma, nýja hugsun og hvetur til enn frekari þróunar á aukinni og bættri nýtingu á því sem frá jarðvarmaverunum kemur.

HS Orka rekur nú tvo orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi. Kjarnastarfsemi þeirra hefur verið í framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Afgangsstraumarnir hafa verið nýttir í ótrúlega fjölbreytta framleiðslu en þar má meðal annars nefna Bláa lónið, snyrtivöruframleiðendur, líftæknifyrirtæki og fiskeldi. Ríflega 500 störf má rekja beint til Auðlindagarðsins, auk annarra afleiddra starfa. 

Fyrirtæki Auðlindagarðsins nýta hvert um sig með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku og verða því af augljósum ástæðum að vera staðsett á Suðurnesjum í grennd við jarðvarmaverin.

Starfsemi Auðlindagarðsins hefur byggst upp á sameiginlegum hagsmunum fyrirtækjanna, þ.e. affall eins er hráefni fyrir annan, nálægðinni og nánu þverfaglegu samstarfi. 

Markmið Auðlindagarðsins er „Samfélag án sóunar“ það er að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fulls og á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Bláa Lónið nýtir alla strauma sem koma frá jarðvarmaveri HS Orku í Svartsengi.  

Efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins

Á haustmánuðum 2014 var leitað til GAM Management ráðgjafar („GAMMA“) og óskað eftir úttekt og ráðgefandi skýrslu um stöðu, áhrif og möguleg tækifæri Auðlindagarðsins sem hefur byggst upp í kringum starfsemi HS Orku á Reykjanesskaga. Auðlindagarðurinn er nú farinn að leika stórt hlutverk í atvinnu- og verðmætasköpun á Suðurnesjum. Umsvif hans á Reykjanesi eru þó ekki eingöngu mikilvæg út frá efnahagslegu sjónarmiði heldur hefur hann einnig margvísleg jákvæð umhverfisáhrif og stuðlar að betri nýtingu á þeim auðlindastraumum sem verða til vegna jarðvarmans á Reykjanesskaganum.


HS Orka og Bláa Lónið stóðu straum af kostnaði við gerð skýrslunnar en höfundarnir voru sjálfráðir um efnistök og greiningaraðferðir innan þess efnisramma sem mótaður var. GAMMA vann að skýrslunni og aðstoðaði dr. Friðrik Már Baldursson við ritun efnahagshluta skýrslunnar. 

Ferðaþjónustan leggur grunn að miklum vexti

Frá árinu 2008 hefur Auðlindagarðurinn á Reykjanesi tekið stakkaskiptum og vaxið hratt. Þó svo að Auðlindagarðurinn hafi byggst upp í umróti eftirhrunsáranna er ljóst að það efnahagsástand sem myndaðist eftir 2008 var að mörgu leyti hagstætt fyrirtækjunum sem þar starfa, enda skapaði lægra raungengi góðar aðstæður fyrir útflutningsfyrirtæki.

Hagfelldar ytri aðstæður skýra að hluta til hraðan vöxt fyrirtækjanna innan Auðlindagarðsins á sama tíma og íslenska hagkerfið var að rétta úr kútnum. Það má því segja að Auðlindagarðurinn hafi verið rétt staðsettur á ákjósanlegum tíma og að þróun hans endurspegli endurreisn utanríkisviðskipta fyrir landið í heild.

Hagvaxtarfræði fjallar fyrst og fremst um það hvað ræður langtímavexti hagkerfa og er þá jafnan gert ráð fyrir því að framleiðsluþættir séu nýttir til fulls. Í hagkerfi sem byggir á náttúruauðlindum, eins og það íslenska, er mikilvægt að auka virði útflutnings með sérþekkingu og samnýtingu mannauðs og nýtingu afurða sem áður fóru til spillis. Það gerist m.a. vegna tækniframfara í viðkomandi framleiðslugreinum, en reynslan sýnir að samstarf fyrirtækja í sama geira eða mismunandi geirum getur einnig skipt verulegu máli þegar aukin nýting afurða er annars vegar.

Starfsemi Auðlindagarðsins er að mestu leyti á sviði orkuframleiðslu og ferðaþjónustu en þar er einnig að finna sjávarútvegsfyrirtæki auk nýsköpunar í líftækni og endurnýjun orkugjafa. Bróðurpartur framleiðslu Auðlindagarðsins fer á erlendan markað, og því skipta aðstæður til útflutnings miklu máli fyrir afkomu garðsins. Útflutningur frá Íslandi jókst í heild um 20% árin 2009-2014 á föstu verðlagi, um 3,7% á ári. Einkum hefur vöxtur ferðaþjónustu verið mikill, en umsvif greinarinnar jukust um 59% frá 2009-2014, eða um 9,7% á ári (staðvirt með vísitölu neysluverðs). Mikill vöxtur ferðaþjónustu hefur skipt verulegu máli fyrir þróun Auðlindagarðsins.

Nánar má lesa um Auðlindagarðinn og efnahagsleg áhrif hans á heimasíðu Auðlindagarðsins.